Bloomberg fréttaveitan greinir frá því í dag að Davíð Oddsson, formaður bankaráðs Seðlabankans hafi kallað eftir alþjóðlegri rannsókn og vísar til þess að Davíð hafi sagt í ræðu sinni á ársfundi bankans s.l. föstudag að óprúttnir miðlarar hafi ætlað að brjóta niður íslenska fjármálakerfið.

„Og því er ekki að neita að sú atlaga sem þessa dagana er gerð að íslenskum bönkum og íslenska ríkinu, en tryggingarálög á það hækkuðu í dag í yfir 400 punkta sem er fráleitt, lyktar óþægilega af því að óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið. Þeim mun ekki takast það,“ hefur fréttaveitan upp úr ræðu Davíðs.

„Því lengur sem þetta ástand varir, því verra verður það,“ hefur Bloomberg eftir Oliviu Frieser, bankasérfræðing hjá BNP Paribas, stærsta banka Frakkalands, staðsettri í Lundúnum. „Þetta er spurning um sjálföryggi,“ segir Frieser.

Farið er í stuttu máli yfir skuldatryggingaálag bankanna þriggja, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans og segir það hafa aukist verulega síðustu misseri. Þá segir Bloomberg að skuldatryggingaálag bankanna sé það hæsta af 81 banka sem fréttaveitan heldur lista yfir.

„Það er mjög mikilvægt að Fjármálaeftirlitið, í samstarfi við önnur ríki, rannsaki markaðinn og athugi hvort slíkar ásakanir séu sannar,“ hefur Bloomberg eftir Bjoern Richard Johanesen hjá Glitni í Reykjavík.

Þá kemur fram að reynt hafi verið að ná tali af Andrew Walton hjá Landsbankanum og Jónasi Sigurgeirssyni hjá Kaupþing en ekki tekist.

Hægt er að sjá umfjöllun Bloomberg hér .