Fréttir af sparaksturskeppni sem efnt var til af bílablaðamönnum breska dagblaðsins Sunday Times hafa vakið athygli. Tveir blaðamenn sem skrifa um bíla í blaðið voru orðnir langþreyttir á einhliða yfirlýsingum framleiðenda um hver framleiði umhverfisvænustu bílana og ákváðu að tefla einum þekktasta tvinnbílnum á markaðnum, Toyota Prius, gegn stórum BMW 5 með dísilvél. BMW-bifreiðin sýndi töluvert minni eyðslu í sparakstri en Toyota Prius, sem þó býr yfir rafknúnum hjálparmótór. Blaðamennirnir óku báðir sömu leið frá Lundúnum í átt til Genfar í Sviss og BMW-inn komst u.þ.b. 4 km lengra á einum tank heldur en Prius-inn á sama lítrafjölda af eldsneyti. Nicholas Rufford, sem ók BMW-inum gumar meira að segja af því í greininni að hafa notað bæði útvarpið og loftkælinguna á leiðinni.