Nasdaq OMX kauphöllin hefur tekið öll þau félög sem þegið hafa styrki eða lán frá bandarískum yfirvöldum og eru enn skráð, saman í eina vísitölu.

Miðast er við þau félög sem fengið hafa yfir 1 milljarð Bandaríkjadala frá stjórnvöldum en þau telja nú 24 félög.

Vísitalan, sem kallast Nasdaq OMX Government Relief Index, var í upphafi árs stillt á 1.000 stig en hefur nú þegar lækkað um 5,1% og stóð við lok markaða í gær í 948,57 stigum.

Stærstu félög vísitölunnar eru bankarnir og fjármálafyrirtækin Bank of America, JP Morgan, Citigroup og Wells Fargo.

Þá eru tryggingafélagið AIG og bílaframleiðandinn General Motors með stærri fyrirtækjum í visitölunni.

Hins vegar vega öll félögin jafnmikið í vísitölunni og nýjum félögum verður bætt við eftir því sem peningarnir streyma frá yfirvöldum.

„Þegar við erum að standa í svona [björgunar]aðgerðum á kostnað skattgreiðenda er rétt að leyfa þeim að fylgjast með því hvernig félögunum gengur. Þannig getum við vonandi mælt árangur björgunaraðgerðanna,“ segir John Jacobs, aðstoðarforstjóri Nasdaq OMX í samtali við Reuters fréttastofuna.

Eins og kunnugt er ákváðu bandarísk yfirvöld að setja saman 700 milljarða dala björgunarpakka til handa bönkum og fjármálafyrirtækum sem höfðu komið illa út úr lausafjárkrísunni. Gáttir sjóðsins hafa hins vegar verið opnaðar öðrum félögum en fjármálafyrirtækjum, meðal annars bílarisunum General Motors, Ford og líklega mun Chrysler bætast við fljótlega.

Þá segir Jacobs að nú sé unnið að því að setja saman vísitölur í öllum löndum þar sem Nasdaq OMX er með starfssemi, þ.e.a.s. hjá þeim félögum sem þegið hafa ríkisaðstoð og eru enn skráð.