Hlutabréfamarkaðir lækkuðu töluvert í Bandaríkjunum í dag en líkt og áður hefur komið fram virðast fjárfestar hafa nokkrar áhyggjur af frekari samdrætti í bandaríska hagkerfinu auk þess sem talið er að bankar og fjármálastofnanir sjái fram á frekari taprekstur, í það minnsta fram á þriðja ársfjórðung þessa árs.

Þá hefur Bloomberg fréttaveitan eftir viðmælendum sínum að björgunaraðgerðir bandarískra yfirvalda muni ekki koma í veg fyrir frekari samdrátt en Obama bandaríkjaforseti skrifaði í dag undir lög sem fela í sér um 787 miljarða dala björgunarpakka.

Nasdaq vísitalan lækkaði í dag um 4,2%, Dow Jones um 3,8% og S&P 500 lækkaði um 4,6% og fór í fyrsta skipti frá því í nóvember undir 800 stig.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði Bank of Amercia, Citigroup og JP Morgan allir um rúm 12%

Hráolíuverð lækkaði töluvert í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 34,95 dali og hafði þá lækkað um 6,8%. Rétt er þó að taka fram að markaðir voru lokaði í gær en þá lækkaði hráolía lítillega í utanþingsviðskiptum í New York auk þess sem Brent olían lækkaði um 3,7% í viðskiptum í Lundúnum.