Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag, líkt og annars staðar, eftir að hafa lækkað síðustu fimm viðskiptadaga. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru það helst orku- olíu- og tæknifyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins.

Líkt og í Evrópu í dag binda fjárfestar vonir til þess að eftirspurn eftir hrávörum aukist frá Kína á næstunni en talið er að Kínverjar séu að setja sig í gírinn fyrir miklar fjárfestingar á næstunni. Búist er við því að kínversk stjórnvöld kynni aðgerðarpakka fyrir helgi sem feli í sér mikil ríkisútgjöld sem geri fjárfestum þar í landi kleift að fjárfesta á ný, eins og viðmælandi Bloomberg orðar það.

Nasdaq vísitalan hækkaði 2,5%, Dow Jones um 2,2% og S&P 500 um 2,4% en sú vístala náði í gær 12 ára lágmarki.

Hráolíuverð rauk upp í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 45,16 dali og hafði þá hækkað um 8,4% frá opnun í morgun.