Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að hafa hækkað síðustu fjóra daga en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar hafa nokkur félög kynnt léleg uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs sem gerir það að verkum að fjárfestar stíga varlega til jarðar.

Viðmælandi Bloomberg segir það þó athyglisvert í ljósi þess að markaðir hafa hækkað aðra daga í vikunni þar sem uppgjörstölur þóttu ekki eins slæmar og búist var við.

„En svona er markaðurinn víst,“ hefur Bloomberg eftir viðmælanda sínum.

„Þetta breytist dag frá degi og það má stundum lítið út af bera til að fjárfestar annað haldi að þeir geti sigrað heiminn eða þá að þeir hlaupa í skjól.“

Nasdaq vísitalan lækkaði um 3,2%, Dow Jones um 2,7% og S&P 500 um 3,3% og hefur þar með lækkað um 6,7% frá áramótum.

Hagnaður þeirra 187 félaga sem þegar hafa kynnt uppgjör sín fyrir fjórða ársfjórðung hefur dregist saman um 42% að meðaltali og er jafnvel búist við því að hann muni dragast saman um 32% þegar öll verða þau búin að kynna uppgjör sín.

Það er athyglisvert í ljósi þess að í apríl í fyrra spáðu greiningaraðilar á vegum Bloomberg að hagnaður félaga myndi aukast að meðaltali um 55% á fjórða ársfjórðungi.