Fasteignasala í Bandaríkjunum jókst umfram væntingar í júní að sögn fjölmiðla vestanhafs. Þar með hefur fasteignasala aukist síðustu þrjá mánuði og á meiri hraða en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Þannig jókst fasteignasala í júní um 3,6% og nam tæpum 4,9 milljörðum Bandaríkjunum. Rétt er að taka fram að hér er átt við fasteignaviðskipti með notaðar íbúðir en ekki nýbyggingar en Bandaríkjamann líta á markað með notaðar fasteignir og markað með nýjar fasteignir sem tvo ólíka markaði.

Fasteignaverð hefur hins vegar lækkað um 15,4% milli ára en meðalverð á hverja íbúð nemur nú um 180 þúsund dölum. Að sögn Bloomberg er það þó í takt við spár greiningaraðila sem spáð höfðu lækkandi verði á fasteignamarkaði.

Greiningaraðilum ber þó ekki saman um hraða verðlækkunar á fasteignamarkaði, þ.e. hversu hratt meðalverð mun lækka á næstu mánuðum. Spár þeirra gera ráð fyrir að undir lok þessa árs hafi meðalfasteignaverð lækkað um 26% – 24% milli ára.

En aukin viðskipti er að sögn viðmælenda Bloomberg merki um að fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér á ný.

„Við sjáum að verð er að lækka og viðskiptin aukast, það er einmitt það sem allir gerðu ráð fyrir,“ segir viðmælandi Bloomberg sem sagður er greiningaraðili á Wall Street sem sérhæfir sig á fasteignamarkaði.

„Það sem skiptir þó meira máli, fyrir utan hina augljósu staðreynd að lækkandi verð og aukin velta eru merki um markaðsbata, er að fólk skuli stunda fasteignaviðskipti. Það þýðir að talsverður fjöldi hefur staðið af sér storminn og þá sýnir það ennfremur að fólk hefur trú á markaðnum. Það vísar á gott.“