Yfirvöld í Bandaríkjunum undirbúa nú nýtt reglugerðaverk fyrir fjármálastarfssemina þar í landi en markmið stjórnvalda er að búa til þannig regluverk í kringum fjármálafyrirtæki að ekki komi til fjármálakrísu á borð við þá er nú ríður yfir fjármálamarkaði um allan heim.

Viðmælendur Bloomberg fréttaveitunnar eru þó sammála um það að engar reglugerðir geti komið í veg fyrir fjármálahrun en vissulega megi bæta lög og reglur eftir því sem menn reka sig á að þær eru gallaðar. Þeir telja ólíklegt að stjórnvöldum takist að búa til hið „fullkomna regluverk“ eins og til stendur samkvæmt heimildum Bloomberg úr Hvíta húsinu.

Samkvæmt frétt Bloomberg má gera ráð fyrir stærstu endurnýjun reglugerða um fjármálafyrirtæki frá því á fjórða áratug síðustu aldar.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna hefur lagt á það mikla áherslu að fjármálafyrirtækjum yrðu setta skýrar reglur. Í samtali við fjölmiðla í vikunni ítrekaði hann þó að reglugerðaverk fjármálafyrirtækja ætti ekki að vera flókið eða gera þeim starfssemina erfiða, en það þyrfti engu að síður að vera skýrt og þar ætti að gera ráð fyrir „bráðnun kerfisins,“ eins og hann orðaði það.

Gera má ráð fyrir að fjármálafyrirtækjum verði gert að auka eigið fé í rekstri og búa sér til varasjóði til að mæta áföllum. Þá segja þeir sem þekkja til að settar verði reglur um afskriftir þannig að tap skráðra fyrirtækja vegna afskrifta komi fyrr í ljós og verði skýrara fyrir aðilum á markaði.

Þá verður allt fjármálaeftirlit í höndum Seðlabanka Bandaríkjanna og bankinn fær auknar heimildir til að grípa inn í rekstur banka og fjármálafyrirtækja ef bankinn telur þörf á.

Reuters fréttastofan fjallar einnig um málið og hefur eftir ónafngreindum aðila í Hvíta húsinu að síðustu vikur hafi starfshópur reynt að finna helstu galla á núverandi reglugerðum. Úr þeim verði nú reynt að leysa.

En reglunum verður ekki breytt án vandræða. Lagasmiðum gæti reynst erfitt að koma í veg fyrir svokölluð undirmálslán, sem margir segja að sé rót kreppunnar, en það verður að teljast ólíklegt að undir stjórn demókrata verði efnaminni fólki gert erfiðara um vik að eignast húsnæði.