Alþjóðlegi bankinn BNP Paribas, sem er með höfuðstöðvar í París í Frakklandi, hefur fengið grænt ljós frá kínverskum stjórnvöldum til opna verðbréfamiðlun í Kína.

Er þetta í fyrsta skiptið í marga mánuði sem erlendur banki fær slíka heimild í Kína. Allt til ársins 2021 þurftu erlend fjármálafyrirtæki, sem hugðust hefja starfsemi í Kína, að vera að hluta í eigu kínverskra aðila. Því var breytt fyrir þremur árum.

Auk BNP Paribas eru JP Morgan og Goldman Sachs með samskonar starfsleyfi. Auk verðbréfamiðlunar mun BNP Paribas veita fjárfestingaráðgjöf og vera með eignastýringu. Hægt hefur á kínverska hagkerfinu undanfarin misseri og nýskráningum fyrirtækja á markað fækkað mikið.