*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 9. maí 2020 22:58

Bogi: Starfsfólkið „helsta fyrirstaðan“

Forstjóri Icelandair segir að nauðsynlegt að samningar náist við flugstéttir fyrir hluthafafund 22. maí. Viðræður mættu ganga betur.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Haraldur Guðjónsson

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir langtímasamninga við helstu starfsstéttir félagsins verði að liggja fyrir þegar hluthafafundur Icelandair fer fram eftir tæpar tvær vikur, föstudaginn 22. maí. Þetta kemur fram í bréfi Boga til starfsmanna Icelandair sem birt var á innri vef félagsins að því er RÚV greinir frá. 

Bogi segir að samningaviðræður ganga misjafnlega en viðræður við Flugfreyjufélag Íslands og Félag íslenskra atvinnuflugmanna mættu ganga betur. Unnið sé dag og nótt að því að tryggja félaginu fjármagn til lengri tíma til að bjarga fyrirtækinu en „að helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu“.

Sjá einnig: Verkfallsrétturinn undir í viðræðum Icelandair

Nauðsynlegt sé að lækka einingarkostnað. „Við eigum í erfiðleikum með að semja um breytingar á samningum þrátt fyrir að með breytingunum séu við eingöngu að færa okkur nær því sem gengur og gerist hjá flugfélögum í hinum vestræna heimi,“ segir enn fremur í bréfinu að því er RÚV greinir frá.

Framtíðin úr höndum félagsins gangi fjármögnun ekki

Á hluthafafundinum mun félagið óska eftir heimild til að gefa út allt að 30 milljarða nýrra hluta. Gangi það eftir er stefnt er að því að reyna að sækja um 200 milljónir dollara, tæplega 30 milljarða króna í hlutafjárútboði í byrjun júní. Þá á félagið einnig í viðræðum við lánardrottna um að skoða að breyta skuldum í hlutafé í félaginu. Eignarhlutur núverandi hluthafa kann að þynnast niður í 15,3% gangi þetta allt eftir að fullu. Ríkisstjórnin hefur einnig veitt vilyrði fyrir lánalínu eða ríkisábyrgð gangi það eftir.

„Icelandair verður að komast í gegnum núverandi stöðu og klára fjármögnun félagsins, annars verður framhaldið væntanlega ekki lengur í okkar höndum,“ segir Bogi. 

Bogi bendir á að bæði fjármagn frá fjárfestum og lánalína ríkisstjórnarinnar byggi á að félagið sé samkeppnishæft til lengri tíma. Samningar þurfi að liggja fyrir við flugfólk til nokkurra ára og að sýna verði fram á að launakostnaður sé ekki hærri en hjá þeim flugfélögum sem Icelandair ber sig saman við. Gera þurfi talsverðar breytingar á samningunum til að auka samkeppnishæfni félagsins en tryggi um leið góð starfskjör og eftirsótt starfsumhverfi. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á fimmtudaginn eru takmörkun á verkfallsrétti starfsmanna meðal þess sem Icelandair hefur farið fram á í viðræðum við starfsfólk.