Meðal þess sem Icelandair fer fram á í stífum samningaviðræðum við stéttarfélög starfsmanna þess er skerðing verkfallsréttar. Icelandair og stéttarfélögin hafa fundað nær daglega að undanförnu og stefnt er að langtímasamningum sem stuðli að stöðugleika og fyrirsjáanleika launakostnaðar.

Að nýir kjarasamningar liggi fyrir er forsenda tæplega 30 milljarða hlutafjárútboðs, en gríðarleg óvissa ríkir um framtíð flugfélagsins, sem ljóst er að mun þurfa utanaðkomandi aðstoð eigi það að lifa heimsfaraldurinn af.

Í gær birti félagið mánaðarlegar farþegatölur sem sýndu 99,5% fækkun farþega milli ára í apríl, eða rúmlega 1.700 farþega í mánuðinum samanborið við ígildi bróðurparts þjóðarinnar, 318 þúsund farþega, í sama mánuði í fyrra. Eins og við er að búast leið sætanýting félagsins fyrir farþegafæðina, og var 13% samanborið við 84% árið áður.

Þátttaka í útboðinu velti á samningunum
Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst eru þeir óvissuþættir sem efst eru í huga tilvonandi þátttakenda í komandi útboði – og á annað borð er fýsilegt að skýrist að ráði fyrir þann tíma – kjarasamningar og hugsanlegar málalyktir varðandi MAX flugvélar félagsins.

Sagt er að hluthafar hafi komið því á framfæri að skilyrði þátttöku í útboðinu sé að kjarasamningar við flugstéttirnar þrjár: flugmenn, flugþjóna og flugvirkja, liggi fyrir.

Sérstaklega sé horft til þess að stuðla að stöðugleika í rekstri félagsins til lengri tíma, og sé þar meðal annars farið fram á við stéttarfélögin að verkfallsrétturinn verði skertur. Náist það ekki sé hætta á að þátttaka í útboðinu verði ekki næg.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.