Bæjarráð Bolungarvíkur hefur samþykkt að lækka laun bæjarfulltrúa um 20% og tekur breytingin gildi 1. janúar nk.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins bestu í Ísafirði.

Baldur Smári Einarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Bolungarvík, lagði þetta til og segir hann launalækkunina vera tilkomna vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

„Eins og menn vita þá er sveitarfélagið í ferli með eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og við komum til með að grípa til aðhaldsaðgerða á næstu misserum. Mér finnst eðlilegt að bæjarfulltrúar gefi gott fordæmi og horfi fyrst í eigin barm og leggi eitthvað af mörkum sjálfir í sparnaðarskyni áður en aðrir verða látnir spara,“ segir Baldur Smári í samtali við Bæjarins bestu.

Ekki er gert ráð fyrir að sveitarfélagið grípi til launalækkana hjá öðrum bæjarstarfsmönnum þar sem laun þeirra er ákvörðuð í kjarasamningum. „Við erum að skoða allt í rekstri bæjarfélagsins í dag og er ekkert undanskilið í þeim efnum,“ segir Baldur.

Í frétt Bæjarins bestu kemur fram að sparnaðurinn sem hlýst af launalækkun bæjarfulltrúa hljóðar upp á 1,2-1,5 milljónir á ári að sögn Baldurs Smára.

„Laun bæjarfulltrúa lækka um tæp 20% að jafnaði og bæjarstjórinn hættir að fá greidd laun bæjarfulltrúa ofan á bæjarstjóralaunin,“ segir Baldur Smári.