Hlutabréfaverð 17 af 19 félaga á aðallista Kaupahallar Íslands hækkuðu í dag, annan daginn í röð. En í dag var fyrsti dagur bólusetninga við Covid-19 hér á landi.

Mest hækkuðu bréf TM og Kviku eða um 5,8% og 5,4%. Þá hækkuðu fasteignafélögin öll, Reginn mest eða um 3,9%, Reitir um 3,7% og Eik um 1,4%. Gengi bréfa Brims stóðu í stað og þá lækkaði Sýn um 1,5%. Bréf Sjóvá hækkuðu um 0,73% en félagið hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar í dag,

OMXI10 Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,6% í viðskiptum dagsins en Marel sem vegur þyngst í vístölunni hækkaði um 3,3%. Icelandair hækkaði um 3,4% í dag og stóðu bréfin í1,685 krónum á hlut við lok viðskipta.

Alls nam veltan í kauphöllinni 4,5 milljörðum króna í dag í 499 viðskiptum. Mest var velta með bréf Marel, um 821 milljón króna, þá Iceland Seafood upp á 575 milljónir króna og Arion banka upp á 513 milljónir króna.