Stjórnvöld í New York-borg hyggjast setja á bólusetningarskyldu fyrir Covid-19 fyrir allt starfsfólk í borginni frá og með 27. desember næstkomandi.

New York hafði þegar sett á bólusetningarskyldu fyrir opinbera starfsmenn í haust en nýja reglugerðin mun einnig ná til starfsmenn í einkageiranum. Um er að ræða fyrstu borgina í Bandaríkjunum sem leggur á slíkar kvaðir fyrir einkageirann, að því er kemur fram í frétt BBC .

„Við í New York-borg höfum ákveðið að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerð,“ er haft eftir Bill de Blasio, borgarstjóra New York-borgar, en hann lætur af embættinu í janúar næstkomandi. „Við erum með Ómíkron sem nýjan þátt, við erum með kalda veðrið sem mun búa til nýja áskoranir í tengslum við Delta afbrigðið og við erum með samkomur yfir hátíðirnar.“

„Bólusetningarskylda er eini hluturinn sem hefur virkilega áhrif,“ sagði de Blasio.

Tíu smit af nýja Covid-19 afbrigðinu Ómíkron hafa greinst í New York. Þar af var einn einstaklingur sem mætti á anime hátíð í Manhattan þann 23. nóvember og umkringdist þar hundruð gesta. De Blasio sagði að gera ætti ráð fyrir að nýja afbrigðið hafi þegar dreift sér um New York.

Hann hvatti jafnframt aðrar borgir til að fylgja fordæmi New York-borgar. „Þetta væri ráð mitt til borgarstjóra, ríkisstjóra og forstjóra út um allt land – notið bólusetningarskylduna. Því altækari sem hún er, því líklegri verða starfsmenn til að segja „allt í lagi, ég ætla að gera þetta“,“ sagði de Blasio. „[Bólusetningarskyldan] þarf að vera algild ef hún á að vernda okkur öll.“

Tillaga Joe Biden Bandaríkjaforseta um að setja á almenna bólusetningarskyldu á einkageirann í Bandaríkjunum hefur mætt mótstöðu á þinginu og í dómssölum.