Nýjasta James Bond myndin, No Time to Die, var tekjuhæsta kvikmynd síðasta árs í kvikmyndahúsum en hún halaði inn rúmlega 87 milljónum króna í miðasölu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FRÍSK, en þar segir að yfir 58 þúsund kvikmyndahúsagestir hafi séð Daniel Craig kveðja hlutverk sitt sem leyniþjónustumaðurinn vinsæli 007 og kvikmyndin verið nokkuð örugglega aðsóknarmesta mynd ársins.

„Á hælum Bond á aðsóknarlista ársins mættu til leiks annars konar hetjur en fyrsta mynd Hannesar Þórs Halldórssonar, Leynilögga, sló heldur betur í gegn. Leynilögga þénaði yfir 76 milljónir í miðasölu en yfir 40 þúsund manns lögðu leið sína í kvikmyndahús til að sjá ofurlögguna Bússa berjast við hættulegustu glæpamenn landsins,“ segir í tilkynningunni.

Þriðja sæti listans féll svo í skaut nýjustu kvikmyndarinnar um ofurhetjuna vinsælu Spider-man. Kvikmyndin Spider-man: No Way Home var frumsýnd viku fyrir jól en þrátt fyrir það klifraði Köngulóarmaðurinn alla leið upp í þriðja sæti listans yfir vinsælustu myndir ársins. Á fyrstu tveimur vikum sínum í sýningu þénaði kvikmyndin yfir 61 milljónir króna í miðasölu og höfðu þá yfir 40 þúsund manns séð hana í kvikmyndahúsum hérlendis.

„Einungis tvær íslenskar kvikmyndir rötuðu inn á listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndir ársins en 15 íslensk verk voru sýnd í kvikmyndahúsum á árinu. Þrátt fyrir að einungis tvær íslenskar myndir hafi komist á listann yfir tekjuhæstu kvikmyndirnar mátti þó sjá aukningu í heildartekjum af íslenskum kvikmyndum og heimildamyndum. Heildartekjur af íslenskum verkum á árinu voru yfir 146 milljónir króna samanborið við tæpar 116 milljónir árið 2020 en það er yfir 26% aukning. Um 86 þúsund manns keyptu sig inn á íslensk verk á árinu samanborið við 70 þúsund manns á árinu 2020. Tvær kvikmyndir tóku til sín meirihlutann af aðsókn ársins en það voru áðurnefnd Leynilögga og gamanmyndin Saumaklúbburinn sem fengu yfir 74% af heildartekjum íslenskra verka á árinu,“ segir í tilkynningu FRÍSK.

Samtals nam miðasala í íslenskum kvikmyndahúsum 1.084.391.002 króna í fyrra, sem er 62,4% hækkun frá árinu á undan. 765.894 manns lögðu leið sína í kvikmyndahús á árinu sem er tæplega 50% aukning frá árinu 2020.