Samkvæmt opinberum tölum í Bretlandi nema bónusgreiðslur til starfsmanna í fjármálageiranum í Bretlandi á þessu ári um 12,6 milljörðum punda. Þetta kemur fram í úttekt Telegraph í dag, en heildarbónusgreiðslur í ár slá fyrir met um hálfan milljarð punda.

Nýlegar bónusgreiðslur koma fyrst og fremst til vegna góðs árangurs á árinu 2007. Mervyn King, aðalbankastjóri Englandsbanka, hefur gagnrýnt þessa bónusmenningu og segir hana ekki þjóna langtímahagsmunum bankans eða veita starfsmönnum rétta hvata til að ná árangri.

Telegraph notast við tölur frá hagstofunni þar í landi og miðar við fyrstu þrjá mánuði ársins. Á síðasta ári námu bónusgreiðslur á sama tímabili 12,1 milljarði punda.

Stærstur hluti greiðslnanna fór til starfsmanna hjá fjárfestingabönkum eða vogunarsjóðstjóra.Fjöldi manns fékk 5 milljónir punda eða meira í jólabónus frá Goldman Sachs, þar af einn miðlari sem fékk yfir 10 milljónir punda. Bob Diamond, forstjóri Barclays, fékk bónusgreiðslur upp á 35 milljónir punda þrátt fyrir að afskriftir bankans hafi numið 2,2 milljörðum.