Alistair Darling, fjármálaráðherra hefur lýst yfir óánægju sinni varðandi mögulegar bónusgreiðslur Royal Bank of Scotland (RBS) og segir að hann muni beita áhrifum sínum til að koma í veg fyrir þær.

Þetta kemur fram á vef BBC í dag en forsaga málsins er sú að stjórn RBS ákvað að greiða stjórnendum og millistjórnendum bankans í bónusgreiðslur fyrir um 1 milljarð Sterlingspunda en bankinn þurfti nýlega á 20 milljarða punda neyðarláni að halda frá breskum stjórnvöldum. Breska ríkið yfirtók þannig tæplega 60% hlut í bankanum.

Fjölmiðlar greindu frá bónusgreiðslunum (sem hafa enn ekki verið greiddar út) fyrir helgi en þær hafa vikið upp nokkra reiði í Bretlandi. Darling sagði að hann myndi ekki sætta sig við að stjórnendur bankana fengju bónusgreiðslur fyrri að hafa næstum því keyrt bankann í þrot, eins og hann orðaði það við BBC.

Stjórnmálamenn geta að öllum líkindum haft áhrif á slíkar greiðslur því með neyðarláninu fylgdu þeir skilmálar að stjórnendur bankans myndu bera vitni fyrir sérstakri rannsóknarnefnd sem fara á yfir aðdraganda fjármálakrísunnar en að sögn BBC verða bónusgreiðslur og ofurlaun tekin sérstaklega fyrir. Þá kann að fara svo að skilyrði verði sett á neyðarlán sem feli í sér að þak verði sett á bónusgreiðslur.

Í janúar birti bankinn neikvæða afkomuspá þar sem búist er við því að tap bankans á síðasta ári verði á milli 7-8 milljarðar punda.

„Ég hef þegar rætt við stjórnarformann RBS og lýst yfir þeirri skoðun minni – sem hann er sammála – að þeir sem bera ábyrgð á þessum mikla taprekstri eigi ekki að ganga frá borðinu með stóra bónusa,“ sagði Darling í samtali við BBC.

George Osborne, fjármálaráðherra í skuggastjórn Íhaldsflokksins, tók undir með Darling og sagði að slíkar bónusgreiðslur væru með öllu óásættanlegar.

„Partýið er búið hjá bönkunum og því fyrr sem þeir átta sig á því, því betra,“ segir Osborne.

Þá minnti hann á að bankinn væri nú í meirihlutaeigu hins opinbera og opinber fyrirtæki ættu ekki að stunda slíkar greiðslur.