Vogunarsjóðurinn Boreas Capital sýndi 13,34% ávöxtun í september síðastliðnum sem gerir mánuðinn þann þriðja besta hjá sjóðnum á árinu. Í apríl og júlí sýndi hann 17,57% og 17,95% ávöxtun.

Óhætt er að segja að ávöxtun hans hafi verið mjög góð á árinu en hún jafngildir um það bil 92% það sem af er þessu ári, samkvæmt upplýsingum sem birtust á heimasíðu Hedgenordic.

Frammistaða Boreas er ein sú besta hjá norrænum vogunarsjóðum en hann fjárfestir einkum í Norður-Ameríku og Evrópu með sérstaka áherslu á Skandinavíu.

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnendum sjóðsins munu þeir halda áfram að horfa til norskra fyrirtækja en sá markaður hefur reynst félaginu mjög vel.