Baulað var hraustlega á Árna Páll Árnason félagsmálaráðherra á opnum borgarafundi sem Hagsmunasamtök heimilanna stóðu að í gærkvöldi undir yfirskriftinni „Bjargráð eða bjarnargreiði”.

Fullt var út úr dyrum og mikill hiti í fundarmönnum vegna aðgerðarleysis stjórnvalda. Hvatt var til nýs greiðsluverkfalls og að fólk taki fé sitt út úr ríkisbönkum. Hávær krafa var um að afskriftum yrði beitt á höfuðstól lána vegna þess forsendubrests sem orðið hafi í bankahruninu.

Mikil og hörð gagnrýni kom á nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar og lög um svokallaða greiðslujöfnun. Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna benti á að greiðslujöfnun sé mjög flókin aðferð til að bæta greiðslustöðu fólks og ómögulegt fyrir almennan lántakanda að átta sig á hvernig þetta virkar. Nær ómögulegt sé líka með vissu að segja til um hvernig lánin og greiðslur af þeim muni þróast.

„Ég kalla þetta samræmda eignaupptöku vegna þess að þetta er ekkert annað en samræmt eignaupptaka. Þetta eru lög sem veita bönkunum heimild til þess að sneiða framhjá samkeppnislögum svo þeir geti sammælst um það hvernig þeir ætla að taka eignirnar af okkur,” sagði Marinó.

„Þetta lánakerfi er meingallað. Það gengur ekki að bara annar aðilinn í lánssamningi fái allt og hinn eigi að greiða hvað sem á gengur.” (...) „Ég segi hingað og ekki lengra. Heimilin eru ekki botnlaus sjálftökusjóður stjórnvalda og illa rekinna fjármálafyrirtækja. Forsendur veðlánasamninga eru brostnar og vafi leikur á lögmæti gengistryggðra samninga. Við krefjumst leiðréttinga strax. Það var brotist inn til okkar og við viljum að þýfinu verði skilað.”

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra taldi lagasetningu bæta mjög stöðu skuldara.

„Með þessari aðferðarfræði næst að hjálpa mjög mörgum frá því að lenda í alvarlegum greiðsluvanda. (...) Höfuðstóllinn mun vissulega hækka vegna hækkandi verðbólgu hér eftir sem hingað til, en greiðslubyrðin mun ekki aukast að sama skapi, nema launaþróunin gefi tilefni til þess.”

Marinó sagði aftur á móti að sú eignaupptaka sem átt hafi sér stað í formi stökkbreytinga á höfuðstól lána sé ekki leiðrétt í lögunum. Forsendubrestur sé heldur ekki viðurkenndur. Einnig miðist lausnin við að lántakendur taki á sig allan skellinn af fjárglæfrum fjármálafyrirtækjanna ef ástandið haldist slæmt í langan tíma.