Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að fela umhverfis- og samgöngusviði að kanna hagkvæmni þess og fýsileika að koma á lestarsamgöngum milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykajvíkur annars vegar og léttlestarkerfis í Reykjavík hins vegar.

Í samþykkt borgarráðs kemur fram að þetta sé gert í ljósi breytinga á eldsneytisverði í heiminum, þéttingar byggðar, umhverfisþátta og áherslu á nýtingu innlendra orkugjafa í samgöngum.

Umhverfis- og samgöngusviði var jafnframt falið að leita til samgönguyfirvalda í landinu um samstarf og kostun verkefnisins.

Umhverfis- og samgöngusvið skal skila til borgarráðs ítarlegri verkefnalýsingu og kostnaðaráætlun vegna verksins ekki síðar en 1. júní næstkomandi.