*

föstudagur, 28. febrúar 2020
Innlent 6. maí 2019 18:53

Borgin föst í fortíðarvanda

Eyþór Arnalds segir að með litlum og einföldum breytingum mætti koma í veg fyrir stór mistök.

Kristján Torfi Einarsson
Eyþór Arnalds fer yfir borgarmálin í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.
Haraldur Guðjónsson

Eyþór nefnir tvær ástæður sem liggi að baki þeim mistökum sem gerð hafa verið í uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík, einhæfa stefnu og óskilvirka stjórnsýslu.   

„Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar er bæði dýr í rekstri og þung í vöfum. Kostnaður við tafir í afgreiðslu á leyfum er til að mynda gríðarlega hár. Aðilar sem hafa fjárfest í dýrum lóðum þurfa að sækja um leyfi til borgarinnar til þess að rífa gömul hús á uppbyggingarreitunum og við vitum dæmi að það hefur tekið borgina tvö til þrjú ár að afgreiða slík leyfi. Allan þennan biðtíma greiða framkvæmdaraðilar vexti af fjárfestingunni og þegar um dýrar lóðir er að ræða getur vaxtakostnaður verið mjög hár. Dýr biðtími þýðir einfaldlega dýrari framkvæmdir sem aftur þýða dýrara húsnæði. 

Það kostar meira að byggja á reitum í grónum hverfum, til dæmis getur kostnaður við að rífa gömul hús verið mjög hár. Uppbygging á stöðum eins og á Landssíma- og Heklureitnum eða Kirkjusandi, kostar mjög mikið. Nú er allt í lagi að byggja á dýrum reitum ef líka er byggt á hagkvæmari stöðum. Það geta ekki allir borðað kavíar. Þetta jafnvægi hefur ekki náðst og afleiðingarnar sjáum við í vaxandi óánægju íbúa. 

Þetta er örugglega ekki niðurstaðan sem meirihlutinn ætlaði sér í upphafi. Þetta er hins vegar staðreyndin. Markmiðið á bak við þéttingu byggðar var mögulega góðra gjalda vert, en framkvæmdin mistókst hrapallega. Afleiðingin er meiri skortur, dýrara húsnæði og hærra leiguverð. 

Fólk leitar út fyrir borgarmörkin eftir húsnæði á viðráðanlegu verði sem leiðir til þess að það þarf að keyra meira. Aftur er niðurstaðan þvert á markmið og ásetning. Stefnan var að draga úr bílaumferð, útblæstri og svifryksmengun en allt hefur þetta aukist undanfarin ár og það hraðar en nokkru sinni fyrr.“

Fortíðarvandi og nútímavæðing

Eyþór telur að með tiltölulega einföldum og ódýrum breytingum sé hægt að laga margt af því sem hefur farið úrskeiðis á undanförnum árum.    

 „Stjórnsýslan í Reykjavík þarf að nútímavæðast. Nú þegar við pöntum pitsu eða flugmiða og eigum bankaviðskipti í gegnum símann er Reykjavíkurborg enn á pappírsöldinni. Fyrir vikið er kerfið óþarflega þungt og flókið. Stundum fallast manni einfaldlega hendur, til dæmis þegar ég sit, ásamt kannski 20 öðrum, á fundi í Skipulagsnefnd og spurningin, hvort leyfa eigi yfirbyggðar svalir í einhverju tilfallandi húsi, er til umræðu í þriðja sinn, mögulega oftar. 

Þetta er ekki það sem stjórnmál eiga að snúast um. Þegar fólk þarf að einblína svona á trén missa þeir óhjákvæmilega sjónar á skóginum. Einmitt það hefur gerst. Stór skipulagsmál hafa farið of hratt og illa undirbúin í gegn á meðan smámálin þvælast um kerfið í óratíma og kosta mikinn tíma og peninga. Við getum gert betur. 

Rafvæðing í stjórnsýslunni myndi einfalda og stytta afgreiðslutíma minni mála og samtímis veita stjórnmálamönnum meiri tíma til að einbeita sér að því sem skiptir máli. Gagnasöfnun og upplýsingagjöf er verulega ábótavant eins og sést best af mistökum í skipulagi og uppbygginu á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Þetta átti að vera einn af lærdómum hrunsins en virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan. Við verðum að gera betur. Meirihlutinn virðist vera fastur í fortíðarmistökum sem hann neitar að viðurkenna og á meðan er hann ófær um að takast á við framtíðina,“ segir Eyþór Arnalds.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.