Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur gengu í dag frá sölu Vélamiðstöðvarinnar ehf. til Íslenska Gámafélagsins ehf. Kaupverðið er 735 milljónir króna. Auk þess tekur kaupandi yfir skuldir Vélamiðstöðvarinnar og lífeyrisskuldbindingar vegna starfsmanna. Hefur kaupverðið þegar verið greitt og hefur kaupandi tekið við rekstri Vélamiðstöðvarinnar ehf. Er þar reiknað með óbreyttum rekstri að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Það voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem undirrituðu kaupsamninginn fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur við Íslenska Gámafélagið ehf. Um er að ræða kaup Íslenska gámafélagsins á öllu hlutafé í Vélamiðstöð ehf. Reykjavíkurborg átti 67% hlutafjár í Vélamiðstöðinni en Orkuveitan 33%.

Óskað var eftir tilboðum í hlutabréf Vélamiðstöðvarinnar 26. júní. Alls bárust átta tilboð og voru þau opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur föstudaginn 15. júlí. Var tilboð Íslenska gámafélagsins ehf., sem nam 735 milljónir króna metið hæst. Aðrir bjóðendur voru GT-verktakar ehf., Hilmar Ólafsson ehf., Kirkjuhvoll ehf., Stilling hf. og Bugar ehf. Sameiginlega buðu Aðalás ehf., Gámaþjónustan hf. og Háfell ehf. og loks H. Guðmundsson ehf. Borgarráð samþykkti síðan þann 21. júlí að gengið yrði til samninga við hæstbjóðanda.

Samkvæmt samningi sem kynntur var í dag tekur kaupandinn á sig tilteknar auknar skyldur gagnvart starfsmönnum umfram samningsbundin réttindi. Þá tekur Reykjavíkurborg á sig auknar skyldur varðandi forgang starfsmanna Vélamiðstöðvarinnar til starfa hjá borginni ef til uppsagna kemur í kjölfar eigendaskipta að fyrirtækinu.

Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar var stofnuð 1964 og tók þá yfir allar bifreiðar og vinnuvélar sem áður tilheyrðu ýmsum borgarstofnunum. Reksturinn var færður yfir í einkahlutafélagsform árið 2002. Vélamiðstöð ehf. leigir út vélar og tæki og eru nú í hennar eigu á þriðja hundrað bifreiða, þar af ýmsar sérhæfðar, og yfir 200 gámar og tæki af öðru tagi. Starfsmenn eru 38.

Salan á Vélamiðstöðinni er liður í þeirri endurskoðun á rekstri og rekstrarformi borgarfyrirtækja og ?stofnana sem staðið hefur óslitið frá árinu 1996. Reykjavíkurborg hefur þannig hætt þátttöku í rekstri fjölda fyrirtækja í samkeppnisrekstri sem hún átti misstóran hlut í. Má þar nefna Skýrr hf., Pípugerð Reykjavíkur hf. og Húsatryggingar Reykjavíkur hf.

Þá hefur til hagræðingar og aukinnar skilvirkni og sparnaðar rekstrarformi ýmissa borgarstofnana verið breytt, s.s. með sameiningu allra veitufyrirtækjanna undir nafni Orkuveitu Reykjavíkur, stofnun byggðasamlagsins Strætó bs. um rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, sameiningu slökkviliða innan Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. og með breytingum á rekstrarformi félagslegra leiguíbúða með stofnun Félagsbústaða hf.