Meðal þeirra sem fengu lán frá Glitni til þess að kaupa stofnfjárbréf í Byr haustið 2007 voru börn stjórnarmanna í sjóðnum á þeim tíma, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Samtals fengu tíu börn lán sem Íslandsbanki ákvað í gær að fella niður á grundvelli þess að þau væru ólögleg. Lánin til barnanna voru veitt eftir að foreldrar þeirra óskuðu eftir þeim.

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í gær lánaði Glitnir ófjárráða börnum, samtals tíu talsins, milljónir króna þegar stofnfé í Byr sparisjóði var aukið um 30 milljarða haustið 2007. Glitnir fjármagnaði stofnfjáraukninguna að stórum hluta.

Tugir stofnfjáreigenda í sjóðnum undirbúa nú mál gegn Íslandsbanka sem tók við skuldbindingum Glitnis vegna stofnfjáraukningarinnar eftir að bankinn féll sl. haust. Þeir telja Íslandsbanka aðeins geta gengið að stofnfé í sjóðnum og arðgreiðslum vegna þess en ekki öðrum eignum.

Vitna þeir m.a. til kynningarefnis frá Glitni máli sínu til stuðnings en í því kemur fram að engar aðrar tryggingar en stofnféð og arðgreiðslur verði fyrir lánum vegna stofnfjáraukningarinnar. Íslandsbanki telur hins vegar að lánasamningarnir sjálfir geri ráð fyrir að bankinn geti gengið að öðrum eignum lántakenda. Bankinn ætlar þó ekki að hefja innheimtuaðgerðir vegna lánanna fyrr en niðurstaða er komin í deilumálið.

Lánin til barnanna voru veitt eftir að sýslumaður hafði samþykkt börnin sem löglega eigendur stofnfjár í Byr. Á grundvelli þessa samþykkis frá sýslumanni voru lánin veitt. Íslandsbanki sendi frá sér í tilkynningu í gær og sagði lánin vera ólögleg þar sem samþykki sýslumanns hefði ekki náð til heimildar til lánveitinga. Engar innheimtuaðgerðir myndu því fara fram vegna þeirra. Bankinn harmaði auk þess málið.