Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, lítur svo á að í núverandi peningamálastefna sé til bráðabirgða, framtíðarskipulag hennar sé enn óljóst. Hún eigi í dag fyrst og fremst að miðast við að halda fjármagnskostnaði fyrirtækja sem lægstum. Hann telur bestu leiðina fram á við vera upptöku evru í gegnum aðild að evrópska myntbandalaginu.

Viðskiptablaðið leitaði til fimm einstaklinga og spurði um sýn þeirra á núverandi peningastefnu og framtíðarfyrirkomulag hennar. Beðið var um skorinorð svör.

Svör Sigurðar Atla:

1. Telur þú, og þá hvernig, að endurskoða þurfi peningastefnuna innan tólf mánaða?

Höft á fjármagnsflutninga og gjaldeyrisviðskipti leika stórt hlutverk en það er mikilvægt að þeim verði aflétt eins fljótt og auðið er. Slík höft geta alls ekki verið hluti af peningamálastefnu okkar til frambúðar. Ég lít því svo á að við séum með einhvers konar bráðabirgða peningamálastefnu um þessar mundir og framtíðarfyrirkomulag peningamálastefnu sé enn óljóst. Mér finnst ólíklegt að verðbólguhætta sé raunveruleg um þessar mundir, en jafnvel þótt svo væri þá dreg í efa að vaxtahækkanir dragi úr þeirri hættu við okkar aðstæður. Forgangsatriði í bráð er að auka fjárfestingu. Peningamálastefnan á því að miðast við að halda fjármagnskostnaði fyrirtækja sem lægstum og jafnframt á að beita ríkisfjármálastefnu til að örva fjárfestingar, m.a. með skattalegum hvötum.

2. Hvaða framtíðarfyrirkomulag á gjaldeyrismálum telur þú heppilegast og hvers vegna?

Efnahagslegur styrkur okkar liggur í náttúruauðlindum okkar og hagkvæmri nýtingu þeirra, einnig í vel menntuðu vinnuafli og hlutfallslega ungri þjóð sem byggt hefur upp umtalsverðan lífeyrissparnað með sjóðasöfnun. Það sem okkur vantar er stöðugleiki í verðlagsmálum sem myndi gera okkur kleift að gera betri langtímaáætlanir, minnka áhættu og lækka fjármagnskostnað. Ég tel að besta leiðin að því marki sé að taka upp evru í gegnum aðild að evrópska myntbandalaginu. Samhliða þarf að liggja fyrir skýrt mótuð efnahagsstefna til framtíðar.

Nánar er fjallað um málið í úttekt í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.