Vegna tafa sem orðið hafa á lokafrágangi við tilskipun Evrópusambandsins um skilameðferð fjármálafyrirtækja hefur dregist að undirbúa innleiðingu ákvæða væntanlegrar tilskipunar í íslensk lög. Vinna nefndar, sem skipuð var til að skila drögum að frumvarpi, hefur óhjákvæmilega tafist og er ekki gert ráð fyrir því að hún nái að ljúka sinni vinnu fyrr en líða tekur á þetta ár. Er nú stefnt að því að unnt verði að leggja nýtt frumvarp fram á löggjafarþinginu 2014-2015.

Vegna þessa hefur bráðabirgðaákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki verið framlengt til 31. desember árið 2015. Ákvæðið, sem upphaflega var sett í tengslum við neyðarlögin, veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.