Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru skrifaðir fyrir eignum upp á tæpa 1,3 milljarða króna, samkvæmt ársreikningum tveggja einkahlutafélaga í þeirra eigu. Á meðal eigna í félögunum eru einbýlishús, tvær íbúðir, að minnsta kosti tveir sumarbústaðir, búlskúrar og lóðir. Eignirnar færðu þeir bræður inn í einkahlutafélögin í október árið 2008, nokkrum dögum eftir að bankarnir fóru í þrot. Bræðurnir, sem gjarnan eru kallaðir Bakkavararbræður eftir matvælafyrirtækinu Bakkavör, voru stærstu hluthafar Kaupþings í gegnum fjármálaþjónustufyrirtækið Exista. Lýður sat jafnframt í stjórn bankans.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að lánardrottnar muni á næstu dögum breyta kröfum sínum á Bakkavör í nýtt hlutafé og muni bræðurnir við það tapa allri eign sinni í félaginu. Þeir áttu að geta eignast allt að fjórðung í Bakkavör ef tækist að greiða kröfuhöfum fyrir mitt ár 2014.

Bakkavör leigir litla skrifstofu í miðbænum

Einkahlutafélög þeirra bræðra Ágústar og Lýðs heita GT 1 og GT 2. Aðalfundir voru í báðum félögum seint í september í fyrra. Ekki virðist hafa orðið breyting á félögunum að neinu leyti frá upphafi fyrir utan að heimilisfesti þeirra beggja var flutt frá Tjarnargötu 35 þar sem skrifstofa Bakkavarar var til húsa í janúar síðastliðnum yfir í leigurými við Thorvaldsenstræti. Fleiri fyrirtæki leigja þar skrifstofur. Leitað hefur verið að nýjum leigjendum að húsinu við Tjarnargötu um skeið.

Einkahlutafélag Lýðs, GT 1, var í upphafi skrifað á hann sjálfan en færðist síðar yfir á einkahlutafélagið GT One Trust, sem skráður er í Bretlandi. Það sama gildir um félag Ágústar, GT 2. Bræðurnir hafa um árabil verið búsettir í Bretlandi.

Lýður skrifaður fyrir milljarði

Einkahlutafélag Lýðs, GT 1, var í upphafi skrifað á hann sjálfan en færðist síðar yfir á einkahlutafélagið GT One Trust, sem skráður er í Bretlandi. Það sama gildir um félag Ágústar, GT 2. Bræðurnir hafa um árabil verið búsettir í Bretlandi.

Lýður Guðmundsson stórnarformaður Exista
Lýður Guðmundsson stórnarformaður Exista
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Samkvæmt ársuppgjöri GT 1 tapaði félagið 11,6 milljónum króna árið 2010. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam rúmum 3,5 miljlónum króna. Eignir námu rétt rúmum einum milljarði króna og var bókfært eigið fé í lok árs 752,2 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall nam 74%.

Á félagið eru skrifaðir svokallaðir varanlegir rekstrarfjármunir upp á 963 milljónir króna og er það lítil breyting á milli ára. Viðskiptakröfur á móti námu 50 milljónum króna en þær voru engar ári fyrr. Ekki er frekari skýring á því hvers kyns kröfur er um að ræða. Þá nema viðskiptaskuldir tæpum 202 miljlónum króna samanborið við 203,4 milljóna króna skuldir árið 2009. Skuldir við lánastofnanir nema tæpum 60 milljónum króna. Þær voru engar árið 2009.  Yfirverðsreikningur hlutafjár nam í lok þarsíðasta árs 732,5 milljónum króna sem er sama staða og ári fyrr. Eigið fé nam í árslok 752 milljónum króna.

Ekki er tiltekið í ársreikningnum hvaða eignir eru í félaginu. Fjölmiðlar greindu frá því um miðbik síðasta árs að þar væru 340 fermetra einbýlishús Lýðs við Starhaga og 60 fermetra íbúð við Hagamel í Vesturbæ ásamt fleiri ótilgreindum eignum.

Ágúst með sumarbústaði á Þingvöllum

GT 2 hagnaðist um 1,6 milljónir króna árið 2010. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam rúmum 2,4 milljónum króna og er það sambærilegt og árið á undan. Eignir félagsins námu tæpum 282 milljónum króna og var bókfært eigið fé 241,2 milljónir. Eiginfjárhlutfall nam 86% í lok ársins.

Ágúst Guðmundsson
Ágúst Guðmundsson
© BIG (VB MYND/BIG)

Á félagið er skrifaðir varanlegir rekstrarfjármunir upp á tæpar 281,5 milljónir króna. Það er 44 milljónum krónum meira en árið 2009.

Ólíkt félagi Lýðs eru engar viðskiptakröfur skrifaðar á GT 2. Þær námu 2,5 milljónum króna árið á undan. Viðskiptaskuldir ruku hins vegar upp á milli ára, fóru úr tæpum 180 þúsundum í tæpar 700 þúsund. Aðrar skammtímakröfur hljóða upp á tæpar 40 milljónir króna. Þær voru engar árið 2009. Yfirverðsreikningur hlutafjár nemur 225,8 milljónum króna sem er óbreytt staða á milli ára.

Það sama gildir um ársreikning Ágústar að eignir félagsins eru ekki taldar upp. Fjölmiðlar sögðu hins vegar frá því í fyrra að haustið 2008 hafi Ágúst flutt inn í það tvo sumarbústaði að Valhallarstíg 15 á Þingvöllum, annan 100 fermetra og hinn 60 fermetra, 150 fermetra íbúð í miðbænum sem innihélt þrjá bílskúra, og land að Jórugili á Þingvöllum.