*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Erlent 17. apríl 2019 19:04

Bragginn og Klaustur eru víðar

Framúrkeyrsla við byggingu menntaskóla í Þórshöfn og baktal þingmanns rötuðu í færeyska miðla.

Ritstjórn
Hörður Kristjánsson

Það er ekki aðeins á Íslandi sem framúrkeyrslur opinberra framkvæmda og óvæntar hljóðupptökur verða að fréttaefni. Tvö slík mál hafa nýverið ratað í fréttirnar hjá nágrönnum okkar í Færeyjum.

Undanfarna mánuði hafa Íslendingar reglulega rætt framúrkeyrslur ýmissa verkefna Reykjavíkurborgar og hafa vitinn við Sæbraut og Bragginn í Nauthólsvík reglulega verið nefnd í því samhengi. Síðarnefnda verkefnið átti að kosta 158 milljónir en endaði í 404 milljónum. Þá þarf ekki að fjölyrða um þá athygli sem fyllerísraus nokkurra þingmanna, á kránni Klaustur, fékk.

Nýverið vakti mikla athygli í Færeyjum þegar Annita á Fríðriksmørk, þingmaður Þjóðveldisflokksins, heyrðist tala illa um forseta færeyska þingsins, Pál á Reynatúvgu, á fundi Þjóðveldisflokksins í bænum Hov. Fundinum var streymt á YouTube en í fundarhléi heyrðist þingkonan ræða við fundarmann um þingforsetann. Vék hún að því að forsetinn væri nánast orðinn vinalaus í flokknum.

„Hann hefur eytt öllum af Facebook sem hafa sagt skoðun sína á honum. Í raun hefur hann eytt nærri öllum Þjóðveldisflokknum af miðlinum,“ sagði Fríðismørk. Gleymst hafði að slökkva á hljóðnema fundarins og hélt upptakan því áfram.

Hún lét ekki staðar numið þar heldur ýjaði að því að þingforsetinn væri haldinn ofsóknargeðklofa og hans eigið egó væri stærra en flokkurinn. Nýverið hefur Páll lagt það til að Færeyingar taki ekki sæti á danska þinginu en tvö þingsæti eru frátekin fyrir Færeyjar. Þingforsetinn hefur ítrekað tapað kosningum um að hljóta sæti á þinginu danska.

Sagt hefur verið frá því í færeyskum miðlum að Fríðriksmørk hafi beðið Reynatúvgu afsökunar á ummælunum en ekki hefur fylgt sögunni hvort þingforsetinn hafi samþykkt afsökunarbeiðnina. Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins og sjávarútvegsráðherra Færeyja, hefur sagt að málið sé ekki pólitískt og að Fríðriksmørk verði ekki refsað fyrir ummælin.

Landsgrannskoðarinn kíkti í hvern krók og kima

Hitt málið varðar framúrkeyrslu við byggingu Glasir, nýs menntaskóla í höfuðstaðnum Þórshöfn. Hafist var handa við að reisa húsið árið 2013 en tíminn hefur leitt í ljós að upphaflegar áætlanir um kostnað byggingarinnar reyndust rangar.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að byggingin myndi kosta 515 milljónir danskra króna, andvirði rúmlega níu milljarða íslenskra á gengi dagsins í dag, framkvæmdin fór rúm 40 prósent fram úr áætlun og endanlegur kostnaður rúmlega 13 milljarðar íslenskra. Til samanburðar má nefna að Vaðlaheiðargöngin enduðu á að kosta rúma sextán milljarða en átti að kosta tæpa níu.

Málið hefur verið mikið hitamál frá síðasta ári og sagði menntamálaráðherra landsins, Rigmor Dam, af sér í upphafi árs vegna þess. Gerði hún það til að axla ábyrgð þó hún hefði ekki haft hugmynd um hvað Landsverk, einhverskonar Ríkiskaup Færeyja, hafi verið að sýsla og jafnvel ýjað að því að stofnunin hafi veitt henni rangar upplýsingar.

Landsgrannskoðarinn, ríkisendurskoðandi Færeyja, skilaði í liðinni viku skýrslu um bygginguna. Er óhætt að segja að enginn þeirra sem að verkinu kom sleppi þar og því fer fjarri að um hvítþvott sé að ræða. Hörðustu gagnrýnina fær Landsverk en gagnrýni til samgönguráðuneytið, menntamálaráðuneytið og Løgtingsins er engu minni. Þá sleppur lögmaðurinn sjálfur, það er forsætisráðherra, ekki heldur.

Eftirliti menntamálaráðuneytisins með byggingu skólans svo og samgönguráðuneytisins með framgöngu Landsverks hafi verið verulega ábótavant og það vart til staðar. Þá hafi lög og reglur verið þverbrotin við framkvæmdina.

Endanlegur kostnaður við byggingu menntaskólans gæti hækkað þar sem óútkljáð er mál milli Landsverks og verktaka. Síðarnefndi aðilinn krefur verktakann um 75 milljón krónur danskar í bætur vegna tafa á afhendingu. Verktakinn telur sig á móti eiga hærri kröfu á ríkið eða tæpar 87 milljón krónur danskar.