Suður-Ameríka hefur ekki verið efst í hugum þeirra sem eru í leit að sínu öðru heimili. Frá Evrópu og Norður-Ameríku er langt til Brasilíu, en þeir sem eiga einhverja aura í handraðanum láta það þó ekki á sig fá.

Greiningarfyrirtækið Knight Frank gerir úttekt á markaði fyrir kaup ríka fólksins á viðbótarheimili (luxury second homes) í Brasilíu.

Samkvæmt þeirri úttekt er brasilíski markaðurinn vaxandi en samt hægfara vegna skorts á nýbyggingum fyrir þennan kröfuharða kaupendahóp. Samt sem áður er búist við að þessi markaður taki stökk á næstu árum í Brasilíu vegna verulega aukinna framkvæmda við smíði lúxushúsnæðis. Það ætti að koma Brasilíu í alvöru inn á kortið fyrir alþjóðlega kaupendur. Knight Frank segir greinileg tengsl milli aukins ferðamannastraums og kaupa fólks á sínu öðru heimili. Brasilía hafi þó fram til þessa einkum heillað þá ferðamenn sem eru í ævintýraleit, en áragömul stefna stjórnvalda sé þó loks að breyta því mynstri.

Árið 1994 var sett í gang sérstakt verkefni um þróun ferðamennsku í norðausturhluta Brasilíu (Development of Tourism in the Northeast - „PRODETUR-NE“). Í framhaldinu var fjárfest gríðarlega á því svæði í þáttum sem tengdust ferðaþjónustu. Fólst það m.a. í innri uppbyggingu á svæðinu, þjálfun starfsfólks, markaðssetningu og nútímavæðingu ferðaþjónustunnar.

Áætlunin fól í sér að fjölga ferðamönnum í níu milljónir á ári, fjölga innlendum komufarþegum á svæðið í 65 milljónir á ári og ná tekjum fyrir 8 milljarða dollara á ári. Einnig var ætlunin að skapa ný störf fyrir 1,2 milljónir manna. Segir Knight Frank að þessi vinna sé nú að skila árangri. Jákvæð þróun Global Property Guide (GPG) tekur í svipaðan streng í sinni úttekt fyrr á þessu ári. Þar segir að í Brasilíu sé vaxandi ferðamannastraumur og einnig vaxandi áhugi útlendinga á fasteignum. Þá sé talsvert um að erlendir ferðamenn séu farnir að kaupa sér frístundaheimili í landinu, ekki síst á landsbyggðinni. Rio de Janeiro, fyrrum höfuðborg Brasilíu, er sem fyrr vinsælasta borgin hjá útlendingum. Þar hefur hin fræga kjötkveðjuhátíð mikið aðdráttarafl. Eins eru fjölmargir staðir í borginni sem laða að ferðamenn, meðal annars mannvirki á borð við stóra Kristslíkneskið á toppi Corcovado fjallsins.

Þrátt fyrir áhuga útlendinga á brasilískum fasteignum þá eru þau viðskipti enn sem komið er aðeins litið brot af markaðnum. GPG telur að þetta geti stafað af ströngum reglum um kaup útlendinga á fasteignum í Brasilíu, sem takmarkar m.a. stærð fasteigna og einnig staðsetningu eftir svæðum. Verða útlendingar að hljóta samþykki brasilískra yfirvalda áður en þeir geta fest kaup á húsnæði í landinu. Þá þurfa útlendingar að hafa sérstakt skattnúmer (CPF) til að eiga möguleika á fasteignakaupum. Af leiguhúsnæði getur afkoman verið há í Brasilíu. Er 50 fermetra íbúð í Sao Paolo t.d. sögð geta gefið af sér 9,6% í afrakstur á ári. Stærri fasteignir gefa hlutfallslega minna af sér eða 5,4% til 7,2% að meðaltali. Fasteignir í Rio de Jainero gefa enn meiri tekjur enda leiguverð yfirleitt hærra. Hinsvegar eru gjöld þar að jafnaði hærri. Afkoma í öðrum borgum eins og Fortalezea, Bahia og í borginni Brasilíu er að jafnaði á bilinu 4% til 7%, en hærri af litlum íbúðum. Flatur 15% skattur er á allar tekjur í Brasilíu, en leigutekjur útlendinga frá lágskattasvæðum bera þó hærri skatt, eða 25%. Þá er bent á að íbúðaleigulöggjöfin í Brasilíu sé mjög hliðholl fasteignaeigendum.