Bravó og Mikligarður, tvær nýjar sjónvarpsstöðvar, munu fara í loftið á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Konunglega kvikmyndafélagið stendur á bak við stöðvarnar en að því standa að hluta sömu aðilar og reka framleiðslufyrirtækið Stórveldið.

Auk þess að að geta horft á stöðvarnar í sjónvarpinu verða þær einnig aðgengilegar með appi í spjaldtölvum og á netinu. Báðar stöðvarnar munu senda út dagskrá allan sólarhringinn og verður allt dagskrárefni íslenskt og í opinni dagskrá.

„Bravó er gleðilegt nafn sem fangar vel efnistök stöðvarinnar sem verður tónlistartengd stöð fyrir ungt fólk,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður og einn eigenda Stórveldisins og Konunglega kvikmyndafélagsins. „Mikligarður verður dægurmálastöð þar sem lögð verður áhersla á að kynna vörur og þjónustu. Við erum að vísa til þess að dægurmál eru mikill ógrisjaður garður. Fyrirtæki munu geta keypt sér kynningu, sem Stórveldið mun framleiða og sýna á stöðinni. Við vonumst til þess að örlög þessa Miklagarðs verði ekki þau sömu og gömlu stórverslunarinnar við Sundin.“

Jóhannes Ásbjörnsson, félagi Sigmars, einbeitir sér að rekstri Hamborgarafabrikkunnar.

„Jói hefur enga aðkomu að fjölmiðlaverkefninu en hann er hins vegar hluthafi í Stórveldinu sem er framleiðslufyrirtæki," segir Sigmar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum tölublöð .