Á vefnum breakingviews.com er fjallað um stöðuna í íslenskum efnahagsmálum. Í umfjöllun Breakingviews segir að Ísland þjáist nú vegna afleiðinga óhófs í efnahagsmálum. Stærri lönd gætu lært af mistökum landsins.

Í greininni er sagt frá velgengni íslensku viðskiptabankanna á undanförnum árum og vandræðum þeirra þegar tók að kreppa að á lánsfjársmörkuðum.

Breakingviews, sem er sérhæfð fréttaskýringaveita á sviði fjármála, segir einnig frá því að stjórnvöld Íslands gætu notað allt að 6,5 milljarða Bandaríkjadala, sem sé 65% vergrar landsframleiðslu Íslands, af erlendu lánsfjármagni til að koma í veg fyrir hrun íslensku krónunnar.

Í greininni segir svo að sú staða sem komin er upp ætti að kenna íslenskum stjórnvöldum að hætta að reyna að styðja við sinn eigin fljótandi gjaldmiðil. Ríkisstjórnin ætti frekar að vinna að því að taka upp evru, efnahagslegur ávinningur af því yrði meiri en pólitískur skaði.