Hlutabréfaverð í lyfjaframleiðandanum Moderna hefur fallið um 19% það sem af er degi eftir að félagið gaf út nýja og lægri söluáætlun.

Moderna væntir þess að selja bóluefni við COVID-19 fyrir 15-18 milljónir dolla á árinu en félagið gaf út í ágúst að það hefði samið um 20 milljarða dollara sölu. Hluti þeirra skammta verða ekki afhentir fyrr en á næsta ári þar sem framleiðsla og afhending bóluefna hefur gengið hægar en vonast var til.

Hluthafar í Moderna ættu ekki að örvænta um of, hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað 304% undanfarið ár og og um 152% það sem af er þessu ári.

Þá hafa tekjur félagsins margfaldast vegna bóluefnasölunnar. Salan hækkaði á þriðja ársfjórðungi milli ára úr 157 milljónum dollara árið 2020 í 4,97 milljarða dollara á þessu ári. Þá hagnaðist félagið um 3,33 milljarða dollara á fjórðungnum miðað við 233 milljóna dollara tap á sama tímabili fyrir ári að því er WSJ greinir frá.