Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins hækkaði um 1,54% í 24,4 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Þetta var fjórði dagur félagsins á hlutabréfamarkaði. Gengi bréfa í félaginu var 8,2 krónur á hlut í útboði í aðdraganda skráningar félagsins á markað. Gengið stendur nú í 8,59 krónum á hlut.

Gengi bréfa Marel hækkaði hins vegar mest eða um 1,6%. Þá hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 1,5% og Haga um 0,27%.

Gengi hlutabréfa BankNordik hélt hins vegar áfram að falla. Það féll um 4,4% í dag og stendur gengið nú í 65 dönskum krónum á hlut. Þegar bankinn færeyski var skráður á markað árið 2007 stóð gengið í rúmum 180 dönskum krónum á hlut.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,75% í dag og endaði vísitalan í 1.068 stigum.