*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 26. nóvember 2020 11:09

Bréf TM og Kviku banka hækka

Hlutabréf TM hafa hækkað um 3,3% það sem af er degi og bréf Kviku banka um 1,7%.

Ritstjórn

Hlutabréf tryggingafyrirtækisins TM og Kviku banka hafa hækkað í fyrstu viðskiptum í kauphöll Nasdaq á Íslandi. Bréf TM hafa hækkað um 3,3% í 48 milljóna króna veltu og bréf Kviku banka um 1,7% í 64 milljóna króna veltu. 

Í gærkvöldi barst tilkynning frá áðurnefndum félögum auk Lykils fjármögnun að stjórnir fyrirtækjanna hafi samþykkt samruna. Í síðasta mánuði var tilkynnt að samrunaviðræður væru hafnar.

Á undanförnum mánuði hafa bréf TM hækkað um ríflega fimmtung og bréf Kviku um 17%. Hlutabréf félaganna hafa aldrei verið hærri.

Hlutabréf Skeljungs hafa lækkað um 1,25% þegar þetta er skrifað í einungis fimm milljóna króna viðskiptum. Félagið Strengur hefur boðað yfirtökutilboð . Í gær barst tilkynning að fjárfestahópurinn sem stendur að baki yfirtökutilboðsins hyggst afskrá félagið úr Kauphöll Íslands. Yfirtökutilboðið er á genginu 8,315 krónur á hlut en markaðsgengi bréfa Skeljungs er nú 8,69 krónur.

Stikkorð: TM yfirtökutilboð samruni Kvika banki