Ólíklegt er að hágildi brennisteinstvíoxíðs vegna útblátsturs tveggja kísilvera og eins álvers í Helguvík fari yfir lögbundin hámörk, að mati Sigurðar Garðarssonar, prófessors við Umhverfis- og verkfræðibraut Háskóla Íslands, en hann hefur skilað álitsgerð sinni um loftgæði við Helguvík til Skipulagsstofnunar.

Segir í niðurstöðu álitsgerðarinnar að miðað við þau gögn sem hafa verið lögð fram sé ekki ástæða til að ætla að styrkur brennisteinstvíoxíðs vegna útblásturs frá verkfsmiðjunum þremur fari yfir reglugerð utan þynningarsvæðis en gæti þó orðið nærri einstökum mörkum.

Með hliðsjón af óvissu í útreikningum og reynslunni frá Grundartanga segir í álitsgerðinni að rétt sé að íhuga hvort ekki eigi að sannreyna spárnar með vöktun eftir að rekstur hefst.

„Við erum ánægðir með þessa niðurstöðu skýrslunnar og það er mjög gott og mikilvægt að óháður aðili hefur nú staðfest, að það þarf ekki að hafa áhyggjur af loftgæðum í Helguvík eða norðurhluta Reykjanesbæjar, þótt allar þrjár verksmiðjurnar hefji starfsemi á svæðinu,” segir Magnús Garðarsson, forstjóri United Silicon hf. þegar leitað var viðbragða hjá honum.