Bresk fyrirtæki hafa ekki eytt jafn litlum fjármunum til markaðsmála síðan hryðjuverkaárásin var gerð á New York í september árið 2001. Þessar upplýsingar koma fram í nýjustu útgáfu IPA Bellwether Report. Brand Republic greinir svo frá á vef sínum. Í skýrslunni kemur fram að helstu skýringarþættirnir séu sala undir væntingum, hærri kostnaður og dökkar efnahagshorfur.

Höfundur skýrslunnar, Chris Williamson, segir stefna í lækkun milli ára á þeim fjármunum sem varið er til markaðsmála í Bretlandi. Gangi það eftir er það í fyrsta skipti sem lækkun verður milli ára frá því IPA hóf mælingar þar í landi. Bein markaðssetning (e. direct marketing) var sá þáttur sem varð verst úti í skýrslunni en um 19% fyrirtækja ætlar að eyða minni fjármunum þar. Skýrslan byggir á könnun sem gerð var á 250 breskum fyrirtækjum úr helstu atvinnugreinum landsins. Helstu upplýsingar úr henni má nálgast á vef IPA .