Líklega veðrur ekkert sem heitir „ókeypis bankaþjónusta“ í kjölfar fjármálakrísunnar og viðskiptavinir bankanna munu í framtíðinni sjá skýrar hvað hlutirnir kosta nákvæmlega.

Þetta segir Merlin Stone, prófessor við Bristol Business School í samtali við breska blaðið The Daily Telegraph en þarna á Stone við breska bankakerfið sem undanfarin ár hafa í sífellt meira magni boðið viðskiptavinum sínum upp á „ókeypis“ þjónustu, t.a.m. reikninga, þjónustusíma og fleira.

Nýlega féll dómur í Bretlandi þar sem HSBC bankinn var dæmdur sekur um að hafa án heimildar rukkað viðskiptavini sína um þjónustugjöld vegna yfirdráttarheimilda.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að kostnaðurinn væri falinn í vöxtum yfirdráttarins og því ekki ljós viðskiptavinum bankans.

Stone segir við Telegraph að breskir bankar muni að öllum líkindum breyta þessu á næstu misserum og gera viðskiptavinum sínum grein fyrir öllum aukakostnaði.

Þá hafa samkeppnisyfirvöld í Bretlandi málið til skoðunar en talið er líklegt að bankar verði neyddir til að rukka sérstök þjónustugjöld í stað þess að „fela“ kostnaðinn innan vaxta eins og Stone kemst að orði í samtali við Telegraph.