Virði bréfa í breskum sjóðum sem fjárfesta í fasteignum hefur minnkað um meira en helming síðan samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis. Slíkir sjóðir voru settir á stofn í ársbyrjun 2007 eftir langvarandi þenslu á breskum húsnæðismarkaði. Búist er við að virði slíkra bréfa kunni að falla um allt að 23% í viðbót til ársloka 2009 vegna lækkunar húsnæðisverðs og samdráttar í hagkerfi landsins. Verð á skrifstofuhúsnæði í aðalfjármálahverfi Lundúna, City, hefur lækkað um 25% undanfarið ár og leiguverð fer lækkandi í fyrsta sinn í fjögur ár. Fasteignagreinandi hjá Lehman Brothers telur að markaður fyrir atvinnuhúsnæði muni ekki rétta úr kútnum fyrr en í fyrsta lagi árið 2013. Mikið byggt Fyrirtæki í byggingariðnaði eru nú að reisa um 390 þúsund fermetra af skrifstofuhúsnæði í aðalfjármálahverfi borgarinnar, sem áætlað er að klára á næstu tveimur árum, en enn á eftir að finna leigjendur að mestu af þessu nýja húsnæði. Offramboð á húsnæði dregur leigutekjur niður og á öðrum ársfjórðungi þessa árs voru leigutekjur um 40% lægri en tíu ára fjórðungameðaltal 111 þúsund fermetra. Leiðrétt fyrir verðbólgu er leiguverð í City nú 33% lægra en árið 1975. Hrun fasteignamarkaðar Lundúna nú er hið mesta síðan í atvinnuhúsnæðiskreppunni á árunum 1990 til 1992, segir í Morgunkorninu.