Breskir neytendur áætla nú að eyða 7% minna í jólainnkaup en þeir gerðu í fyrra.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC en tölurnar eru byggðar á skýrslu Deloitte.

Í skýrslu Deloitte kemur fram að jólavertíðin nú kunni að vera „ein sú erfiðasta í áratugi,“ eins  og það er orðað í skýrslunni.

Fram kemur í skýrslunni að um 24% neytenda áætli að eyða minna til jólainnkaupa á meðan um 57% mun eyða svipuðum upphæðum og í fyrra.

Aðeins 19% neytenda gerir ráð fyrir að eyða meira en í fyrra.

Þá kemur fram að hver fullorðinn einstaklingur eyðir að meðaltali um 655 Sterlingspundunum (um 136 þúsund ísl.kr. að núvirði) í jólainnkaupin.