Ítalskar veitingakeðjur á Bretlandi og ekki síst pítsastaðakeðjur eiga margar hverjar í umtalsverðum vanda þessi misserin.

Á síðustu árum hafa fjárfestar horft hýrum augum til breskrar pítsastaða sem þeir sáu sem ákjósanleg fjárfestingatækifæri. Nú virðist vera sem þær áætlanir sem kaupin byggðu á hafi verið fram úr hófi bjartsýnar.

Financial Times segir fjárfestarnir hafi margir hverjir farið flatt á því að kaupa keðjurnar á háu verði og í kjölfarið fjölga stöðum og auka skuldsetningu í von um að fjárfestingin skil hærri arðsemi. Það hefur nefninlega verið vandkvæðum bundið að láta grunnrekstur veitingastaðanna standa undir afborgunum skulda.

Fall pundsins í kjölfar Brexit atkvæðagreiðslunnar hefur valdið hækkandi verði aðfanga. Þá er hækkun lágmarkslauna, hækkandi vaxtastig og hærra leiguverð sagt eiga þátt í því að fyrirtækjum gangi illa að halda rekstrinum á réttu róli.

Financial Times greinir frá því að loka eigi 117 veitingastaðir á Bretlandseyjum. Jamie Oliver’s Italian tilkynnti fyrr á þessu ári að hann myndi loka tugum veitingastaða. Þá hafa ítölsku veitingakeðjurnar Strada og Prezzo einnig tilkynnti að þeir ætli að loka fjölda veitingastaða.

TPG Capital, sem keypti Prezzo á 304 milljónir punda, um 42 milljarða króna hyggst láta loka þriðjungi af um 300 veitingastöðum, á Bretlandi. Prezzo tapaði 73 milljónum punda, ríflega tíu milljarða króna árið 2016, sexfalt hærri fjárhæð en á árinu þar á undan.

Kínvesta fjárfestingafélagið Hony greiddi 900 milljónir punda fyrir Pizza Express árið 2014, sem samsvarar 125 milljörðum króna, en hagnaður félagsins á fyrra rekstrarári nam einungis 2 milljónum punda fyrir skatta, eða sem samsvarar tæplega 280 milljónum króna.

Carluccio, veitingakeðja sem fjárfestingafélagið Landmark Group frá Dúbaí, keypti árið 2010 á tuttugafalda ársveltu fyrirtækisins árið 2010 hefur að undanförnu reynt að selja staðinn án árangurs.