Nýhafið ár mun einkennast af harðindum og þrengingum í kjölfar harkalegra aðhaldsaðgerða í ríkisbúskap ríkja á meginlandi Evrópu, að mati Heather Stewart, viðskiptaritstjóra breska dagblaðsins Guardian.

Stewart segir sameiginlegar opinberar aðhaldsaðgerðir hinna ýmsu ríkisstjórna hafa ýtt evrusvæðinu út í nýja kreppu. Það muni hafa áhrif á afkomu og líf milljóna manna sem búi í Evrópu og auka atvinnuleysi.

Hún segist skilja reiðina sem kraumi í ungu fólki víða á evrusvæðinu enda hafi leiðtogum ríkjanna trekk í trekk mistekist að leysa vandann og koma sér saman um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi. Hún segir stöðuna slíka að ungt fólk muni sýna vonleysi sitt í auknu mæli í verki á nýju ári og verða reiðara í garð stjórnvalda en í fyrra.

Atvinnuleysi á meðal ungs fólks er mest á Spáni en þar mælir 45% þeirra göturnar. Atvinnuleysi á meðal ungs fólks mælist 42,89% í Grikklandi og 29,8% á Írlandi.