Sömu fjóru flokkarnir og síðast standa að meirihlutaáliti fjárlaganefndar Alþingis um Icesave-ríkisábyrgðina sem fullgert var á nefndarfundi í nótt. Framsókn er enn á móti. Tvær meginbreytingar voru gerðar á ríkisábyrgðinni.

Annars vegar þarf að liggja fyrir svar frá Bretum og Hollendingum um að þeir samþykki fyrirvarana sem Alþingi hefur sett við ríkisábyrgðina áður en fjármálaráðherra fær endanlega heimild til að veita hana.

Hins vegar er hnykkt á því að standi eitthvað út af varðandi Icesave-skuldina árið 2024 framlengist ábyrgðin ekki sjálfkrafa  heldur verði rætt við Breta og Hollendinga um framhaldið. Endanleg afgreiðsla verði þó sem fyrr í höndum Alþingis.

Þetta sagði Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, í samtali við Viðskiptablaðið í morgun.

Lokaumræða huganlega á morgun

Guðbjartur sagði að gengið hefði verið frá texta meirihlutans í nótt. Nefndin hittist aftur klukkan 14 í dag og er reiknað með því að álitið verði afgreitt úr nefnd síðdegis. „Þá er það í höndum  forseta þingsins að boða til lokaumræðunnar," segir hann.

Miðað sé við að sú umræða geti farið fram á morgun, miðvikudag, en nefndarálitum verði væntanlega dreift á Alþingi í kvöld.

Flokkarnir fjórir sem standa að meirihlutaálitinu eru Samfylking, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Borgarahreyfingin.