Breskir bankar hafa styrkt sjóði sína vel og geta harkað af sér áganginn kasti Grikkir evrunni og taki drökmuna upp á ný sem þjóðargjaldmiðil. Þetta segir Michael Cohrs, sem sæti á í nefnd Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, og fylgist með fjármálastöðugleika landsins. Breska dagblaðið Guardian hefur eftir honum í dag að verið sé að vinda ofan af skuldakreppunni á evrusvæðinu. Engu að síður sé erfitt að segja til um hver smitáhrifin verða segi Grikkir sig úr myntbandalaginu.

Greinahöfundur Guardian fjallar ítarlega um Cohrs í dag og tekur sérstaklega fram að hann sé reynslubolti úr fjármálageiranum. Hann hefur m.a. unnið um árabil hjá útibúi Deutsche Bank í Bretlandi og vann hjá bankanum þegar bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers fór í þrot í september árið 2008 og dró heimshagkerfið með sér í fallinu. Af þessum sökum sé sjónarhorn hans á kreppuna annað en kollega hans innan veggja Englandsbanka.

Hann bendir hins vegar á að evrukreppan sé ólík falli Lehman Brothers. Bankinn hafi hrunið á 72 tímum á meðan vandi Grikkja hafi verið að vinda upp á sig smám saman fyrir allra augum.