Áætlun breskra íhaldsmanna, um að leggja niður breska fjármálaeftirlitið (FSA), eru of stórt skref að mati fjármálageirans þó flestir séu í meginatriðum sammála tillögum íhaldsmanna.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins The Daily Telegraph í dag dag en tillaga íhaldsmanna gengur í meginatriðum út á það að leggja niður FSA og skipta verkefnum eftirlitsins upp á milli Englandsbanka og nýrrar stofnunar um neytendavernd.

Íhaldsmenn segja að núverandi kerfi, þar sem fjármálaráðuneytið, Englandsbanki og FSA sjá saman um fjármálastöðugleika, hafi ekki dugað til að koma auga á hættuna af skuldasöfnun í bankakerfinu fyrir fjármálakreppuna.

Efast um að Englandsbanki sé fær um að sinna hlutverki fjármálaeftirlits

Viðmælendur Telegraph úr City hverfinu eins og það er gjarnan kallað (sbr. Wall Street í New York) eru sammála mörgu í tillögum íhaldsmanna. Þannig segir blaðið að viðmælendur þess séu sérstaklega sammála þeirri skoðun George Osborne, talsmanni Íhaldsflokksins í fjármálum og líklegum fjármálaráðherra í stjórn íhaldsmanna, að mikilvægt sé að færa saman stjórn peningamála og eftirlit með bankakerfinu til að hagkerfið sé ekki byggt á skuldum.

Hins vegar þykir mörgum að það sé of stórt skref stigið með því að leggja niður FSA eins og tillögur íhaldsmanna ganga út á. Það væri þó hægt að gera með lengri fyrirvara.

Viðmælendur blaðsins óttast flestir að með því að leggja niður FSA sé fjármálalífinu raskað um of. Þá spilar einnig inn í að ef ákveðið verði fljótlega að leggja niður FSA geti það gert stofnunina algjörlega vanhæfa en fjölmörgum verkefnum og málum er enn ólokið hjá eftirlitinu.

Þá hafa nokkrir viðmælendur blaðsins efasemdir um að Englandsbanki sé fær  um að sinna hlutverki fjármálaeftirlitsins. Bankinn sé fyrst og fremst hugsaður sem „banki bankanna“ en ekki eftirlitsaðili. Nær væri að leggja fram skýrari lög og reglugerðir um fjármálastarfssemi sem gerði öllum auðveldara um vik að starfa.

Tillögur íhaldsmanna tilefni til frekari viðræðna og umfjöllunar

Telegraph vekur sérstaka athygli á því að fæstir viðmælendur blaðsins vildu koma fram undir nafni en tóku þó sem fyrr segir vel í tillögur íhaldsmanna. Tillögurnar sem lagðar eru fram núna þykja skipta máli að mati blaðsins þar sem ekki sé ólíklegt að þeir séu að fara bera sigur úr býtum í næstu kosningum.

Hins vegar eru málefni fjármálageirans viðkvæm og enginn úr geiranum vilji „rugga bátnum“ eins og blaðið orðar það með því að gagnrýna eða taka vel í tillögur íhaldsmanna opinberlega. Þannig segir blaðið að allir bíði eftir því að sjá hvernig kosningarnar á næsta ári fara.

Angela Knight, framkvæmdastjóri samtaka bankamanna, fagnaði þó tillögum íhaldsmanna og sagði þær skref í rétta átt. Mjög mikilvægt væri að endurskoða reglur um fjármálastarfssemi og mikilvægt væri að klára þá vinnu sem fyrst. Hún tók fram að hún væri ekki sammála öllum tillögum íhaldsmanna, m.a. því að leggja niður FSA, en tillögurnar gæfu þó tilefni til frekari viðræðna og umfjöllunar.