Englandsbanki birtir í nýrri skýrslu um fjármálastöðugleika könnun sem hann gerði á meðal fjárfesta. Meirihluti þeirra telur að líkur á stóru höggi í fjármálakerfi Bretlands sé í meðallagi líklegt til skamms eða millilangs tíma. Meira en þriðjungur telur líkurnar miklar eða mjög miklar til millilangs tíma. Þetta kemur fram í frétt WSJ um skýrslu Englandsbanka.

Englandsbanki segir í skýrslunni að bankakerfið í Bretlandi og heiminum öllum verði enn um hríð viðkvæmt fyrir nýjum efnahags- og fjármálaáföllum, þrátt fyrir að markaðsaðstæður á síðustu mánuðum hafi reynst betri en búist hafi verið við.

Englandsbanki, sem er seðlabanki Bretlands, segir að efnahagsreikningur margra helstu banka heimsins sé enn veikur og skuldir enn of miklar. Hann hefur áhyggjur af getu banka til að veita nægilegt lánsfé til að styðja við hagvöxt ef frekari erfiðleikar komi upp á mörkuðum.