Samdráttur varð á framleiðslu í Bretlandi milli september og október mánaðar.

Þó að samdrátturinn sé ekki mikill í prósentum, um 1%, er þetta engu að síður mesti samdráttur milli mánaða síðan mælingar hófust að sögn BBC.

Helst má rekja framleiðslusamdráttinn til lækkandi olíuverðs og hækkandi verðbólgu að sögn viðmælenda BBC.

Þá eru viðmælendur BBC sammála um að verðbólguáhrifin séu nú farin að segja verulega til sín í breska hagkerfinu og þannig muni það vera á næstu mánuðum.

Englandsbanki lækkaði stýrivexti í síðustu viku – þrátt fyrir vaxandi verðbólgu – úr 4,5% í 3% í þeirri von að hleypa lífi í hagkerfið.