Bændasamtök Íslands eru með til skoðunar að breyta hluta af skrifstofuaðstöðu sinni í húsnæði Hótel Sögu og ráðstefnusölum hótelsins í hótelherbergi, að sögn Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar, formanns samtakanna og stjórnarformanns Hótels Sögu ehf.

„Þegar ráðstefnusalirnir á annarri hæð Hótel Sögu voru gerðir upp þá var allt gert klárt undir breytingu. Það er því tiltölulega auðvelt að breyta norðurenda hótelsins í herbergi,“ segir Sigurgeir Sindri.

Aðspurður hvort til skoðunar sé að flytja skrifstofuaðstöðu Bændasamtakanna úr húsi svarar hann að allt sé til skoðunar hvað þessi mál varðar.

Bændasamtök Íslands eiga og reka tvö hótel, Hótel Sögu ehf. og Hótel Ísland í Reykjavík. Nú eru 209 herbergi og svítur á Hótel Sögu og segir Sigurgeir Sindri að 24 herbergi myndu bætast við ef af breytingunni yrði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .