Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, tekur undir þau ummæli að Íbúðalánasjóður búi við mikinn rekstrarvanda. Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, sagði í samtali við Bloomberg í dag að starfsemi Íbúðalánasjóðs væri ekki sjálfbær og viðskiptamódel hans muni ekki duga til þess að snúa orðnu tapi sem mun á endanum lenda á skattborgurum. Endurskipulagning sjóðsins dugi ekki til.

Bjarni Benediktsson bendir á að málefni sjóðsins séu á forræði félagsmálaráðherra. Í velferðarráðuneytinu hafi verið í gangi vinna við að meta stöðu sjóðsins. Einnig sé farin af stað vinna við að skoða húsnæðislánamarkaðinn til framtíðar. „Við fylgjumst vel með þessari vinnu í fjármálaráðuneytinu, sérstaklega hvað varðar rekstrarvanda sjóðsins. Það birtist ákveðin afstaða í því að við gerum ráð fyrir framlagi til sjóðsins á næsta ári,“ segir hann.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 4,5 milljarða króna framlagi úr ríkissjóði til Íbúðalánasjóðs. Frá hruni hefur Íbúðalánasjóður fengið rúmlega 41 milljarða króna framlag.