Samkvæmt frétt í Wall Street Journal er mikill þrýstingur á að Stan O´Neal formaður stjórnar Merrill Lynch víki frá störfum. Samkvæmt frétt í blaðinu kom stjórn Merrill Lynch saman í gær til að ræða stöðu O´Neal en hann er sagður hafa misreiknað stöðu bandaríska húsnæðislánamarkaðarins stórlega og með því orðið valdur af stærsta tapi í sögu félagsins.

Í New York Times segir að O´Neal hafi viðrað hugmyndir við stjórn Merrill Lynch um hugsanlega sameiningu við Wachovia. Á CNBC er aftur á móti haft eftir félaga O´Neal að hann hafi sagt sér að hann mundi líklega missa starfið.

Framtíð O´Neal hjá Merrill Lynch verður að öllum líkindum ákveðinn á stjórnafundi um helgina.