Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn Regins fasteignafélags hf., en nýtt fólk kemur til með að manna stöður fjögurra framkvæmdastjórnarstarfa í stjórnendateymi félagsins.

Páll V. Bjarnason mun taka við sem framkvæmdastjóri Regins Atvinnuhúsnæðis ehf., en einnig mun Páll stýra verkefnum Fasteignaumsýslu Regins.

Rúnar Hermansson Bridde mun taka við framkvæmdastjórn nýs sviðs Regins, svokallaðs Útleigusviðs. Þá verður hlutverk sviðsins yfirsýn yfir stöðu útleigu hverju sinni.

Björn Eyþór Benediktsson mun taka við nýrri stjórnunareiningu Upplýsingar og greiningar, sem komið verður á fót. Einingin mun koma til með að bæta vinnslu, greiningu og framsetningu upplýsinga sem og miðlun þeirra innan félagsins.

Þá mun Guðlaug Hauksdóttir taka við sem yfirmaður reikningshalds félagsins. Hún hefur starfað sem sérfræðingur á fjármálasviði félagsins í rúmlega fimm ár.

Þá mun Katrín Sverrisdóttir segja störfum sínum fyrir Reginn lausum, en hún hefur verið framkvæmdastjóri dótturfélaga Regins - Regins Atvinnuhúsnæðis, Knatthallarinnar ehf. og Kvikmyndahallarinnar ehf.