*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 15. janúar 2022 11:38

Breytingar öllum til hagsbóta

Forstjóri RB, segir breytingar í rekstri félagsins fyrst og fremst hugsaðar til að ná fram hagræði, öllum til hagsbóta.

Sveinn Ólafur Melsted
Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB, segir að breytingar á starfsemi fyrirtækisins miði fyrst og fremst að því að ná fram hagræði.
Gígja Einarsdóttir

Hluthafar Reiknistofu bankanna (RB) hafa ákveðið að breyta áherslum í starfsemi fyrirtækisins með það að markmiði að efla öryggi og stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri fjármálainnviða á Íslandi. Munu breytingarnar meðal annars fela í sér að starfsemi RB verður skýrt skilgreind utan um samrekstur mikilvægra kerfa fyrir fjármálamarkaðinn, rekstur kerfa greiðslumiðlunar og tengdra innviða. Mun félagið draga sig út úr öðrum rekstri fyrir árslok 2026. Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB, segir að eftir breytingarnar verði eins og áður samkeppnissjónarmiða gætt í hvívetna í starfsemi félagsins. Þá verður leitast eftir að arðsemi félagsins verði hófleg og verðlagning gagnsæ. Markmið félagsins sé ekki að greiða arð til hluthafa heldur að verja hagnaði í frekari þróun og uppbyggingu fjármálainnviða.

„Reiknistofa bankanna var stofnuð árið 1973 og var fyrst um sinn samstarfsverkefni bankanna. Árið 2011 var RB breytt í hlutafélag og var hlutverk félagsins á sama tíma útvíkkað yfir í að vera upplýsingatæknifyrirtæki á fjármálamarkaði. Frá stofnun hafði hlutverk RB fyrst og fremst verið að þjónusta bankana en eftir breytingarnar 2011 var gerð sátt við Samkeppniseftirlitið og við það fjarlægðust bankarnir starfsemi RB að einhverju leyti. Með breytingum sem ráðast á í nú má segja að aftur sé verið að þrengja verksvið RB, sem á nú fyrst og fremst að þjónusta bankana."

Kerfislega mikilvægu viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, eru stærstu hluthafar RB, en auk þess eiga Seðlabankinn, sparisjóðir og Kvika banki minni hlut í fyrirtækinu. Ofangreindar breytingar fela einnig í sér að RB kaupir ARK-kerfi og SWIFT-þjónustu Greiðsluveitunnar ehf., dótturfélags Seðlabanka Íslands, og starfsemi JCC ehf., seðlavers kerfislega mikilvægu bankanna. RB verður því til frambúðar í eigu fjármálafyrirtækja sem taka við innlánum og Greiðsluveitunnar, sem fer með hlut Seðlabanka Íslands. Þá fá eigendur beina aðild að stjórn RB en hana skipa einn fulltrúi hvers af kerfislega mikilvægu bönkunum, einn frá Greiðsluveitunni ásamt óháðum fulltrúa.

Tækifæri í samrekstri

Ragnhildur segir að með þessum breytingum sé stuðlað að virkri stefnumótun og betri eftirfylgni í þróun og rekstri fjármálainnviða, auk hagkvæmari framþróunar innviða. Reynsla síðustu ára af stórum innleiðingarverkefnum í fjármálakerfinu hafi sýnt fram á þörfina á slíkum breytingum. Innleiðingartími breytinga hafi verið of langur og kostnaður í kerfinu of mikill, auk þess sem Ísland sé að dragast aftur úr nágrannalöndum í framþróun ákveðinna innviða.

„Kerfislega mikilvægu bankarnir eru að bjóða upp á mjög fjölbreytta þjónustu en eru á alþjóðavísu fremur smáir. Á sama tíma eru kröfur til þeirra sífellt að aukast með hinum ýmsu reglugerðarbreytingum, auk þess sem kerfin verða flóknari með tímanum. Þar af leiðandi er mjög skynsamlegt að íslensku bankarnir reki kerfin saman. Við erum núna á lokametrunum með að klára eitt stærsta upplýsingatækniverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi, er hið svokallaða Sopra kerfi fyrir innlán og greiðslur verður að fullu innleitt. Þetta verkefni mun klárast í febrúar þegar sparisjóðirnir, Kvika og Seðlabankinn innleiða Sopra kerfið inn í sína starfsemi. Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa þegar innleitt Sopra. Þetta er mjög stór áfangi og lærdómurinn sem við drögum af því er að þegar ráðast á í svona stórt verkefni, sem hefur áhrif á marga, er langbest að slík verkefni séu unnin í nánu samstarfi milli aðila. Við sjáum mikil tækifæri í því að reka öll sameiginleg verkefni bankanna undir sama hatti, því það er mjög kostnaðarsamt að reka margar smáar einingar. Breytingarnar snúast því fyrst og fremst um að ná fram hagræði, öllum til hagsbóta."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér